Baugur Group hf.

Baugur Group hf.

"Sjóður 9 og Sjóður 1 hófu fjárfestingar í verðbréfum útgefnum af Baugi í mars 2006. Sjóður 9 fjárfesti í upphafi fyrir um 2 milljarða króna í verðbréfaútgáfu sem auðkennd var BAUG 06 1 en bréfin voru til eins árs. Sjóður 1 fjárfesti í sömu útgáfu fyrir um 1,5 milljarða króna. Heildarútgáfan nam 3,5 milljörðum og saman áttu sjóðirnir því alla útgáfuna. Útgáfan var í umsjón Glitnis banka. Í lok febrúar 2007, rétt fyrir gjalddaga bréfanna, keypti Sjóður 9 umrædd bréf af Sjóði 1 og átti eftir það alla útgáfuna fram að gjalddaga. Á gjalddaga bréfanna var staða sjóðsins í Baugi framlengd með kaupum á nýrri víxlaútgáfu (BAUG 08 0329) og í framhaldi af því virðist kerfisbundið hafa verið endurfjárfest í verðbréfum útgefnum af Baugi á gjalddaga.

Áréttað skal að allar fjárfestingar Sjóða 1, 9 og 11 í Baugsbréfum voru í óskráðum skuldabréfum og víxlum.

Frá apríl 2007, eftir að Baugur varð stór hluthafi í Glitni banka, jukust fjárfestingar Sjóðs 9 í Baugi jafnt og þétt fram undir lok þess árs. Mest átti sjóðurinn af verðbréfum útgefnum af félaginu í lok nóvember 2007 eða jafnvirði 13,5 milljarða króna (9,7% af heildareignum sjóðsins). Fjárfesting Sjóðs 1 í Baugi náði hámarki í maí 2008 en þá átti sjóðurinn bréf að andvirði 3,3 milljarða króna (6,6% af heildareignum sjóðsins). Í lok september 2008 átti Sjóður 9 Baugsbréf fyrir 12,5 milljarða (12,9% af heildareignum sjóðsins), Sjóður 1 fyrir 1,8 milljarða (4% af heildareignum sjóðsins) og Sjóður 11 fyrir 238 milljónir króna (3,4% af heildareignum sjóðsins).

Dæmi eru um að sjóðir innan Glitnis sjóða hafi átt viðskipti sín á milli með óskráð og illseljanleg verðbréf. Eitt athyglisvert dæmi um viðskipti þar sem Baugsbréf koma við sögu er frá lokum desembermánaðar 2007. Hinn 28. desember 2007 seldi Sjóður 9 víxlaútgáfuna BAUG 08 0329 í heild sinni til fagfjárfestasjóðsins GLB FX, 820 nafnverðseiningar, alls að nafnvirði 4,1 ma. kr. Sjóðurinn keypti svo aftur stærsta hluta útgáfunnar eftir áramótin, fyrst 620 einingar 7. janúar og svo 180 einingar 9. janúar 2008. Samkvæmt upplýsingum frá Glitni sjóðum var ástæða sölunnar í desember 2007 að útstreymi hefði verið úr sjóðnum í mánuðinum. Sjóðstjóri hefði því ákveðið að auka seljanleika en um leið að lengja líftíma eignasafnsins og draga úr fyrirtækjaáhættu með því að fjölga útgefendum í sjóðnum. Í framhaldinu hefðu verið fest kaup á víxlum og skuldabréfum útgefnum af Icelandair (IAIR 09 0123), Straumi (STRB 08 0701), Landsbanka (LAIS 98 3) og Glitni banka (GLB 08 0728). Ástæða þess að Baugsvíxlarnir voru keyptir til baka í janúar 2008 hefði verið sú að Sjóður 9 hefði byrjað að vaxa að nýju (það athugast að aðeins 2½ viðskiptadagur var á milli sölunnar og fyrstu endurkaupanna). Í útskýringum sjóðstjóra til rannsóknarnefndarinnar kom jafnframt fram að á þessum tíma hefði verið umframeftirspurn eftir fyrirtækjavíxlum. Þar sem sveiflur hefðu gert vart við sig í inn- og útstreymi í desember 2007 og byrjun janúar 2008 hefði sjóðstjóri ákveðið að taka tilboði í umræddan fyrirtækjavíxil til þess að ná fram hámarksávöxtun með tilliti til áhættu. Þegar framangreindur víxill kom á gjalddaga 29. mars 2008 var skuld samkvæmt honum framlengd með kaupum á þremur nýjum víxlaútgáfum, þ.e. 1 ma. kr. í BAUG 07 7; 1,8 ma. kr. í BAUG 08 0910 og 1,3 ma. kr. í BAUG 09 0310 A, alls um 4,2 milljarðar króna. Alls voru Baugsbréf í eigu sjóðsins að verðmæti 4,5 milljarðar króna á gjalddaga í mánuðinum en sjóðurinn endurfjárfesti um 4,2 ma. kr. af þeirri upphæð. Fjárfest var fyrir mismuninn í Sjóði 1 og ríflega það því sjóðurinn fjárfesti fyrir 636 milljónir í BAUG 08 0910. Í apríl 2008 gerði Sjóður 1 gott betur og lánaði Baugi 1 milljarð króna til viðbótar með kaupum á BAUG 07 7.

Ofangreind viðskipti eru sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að á tímabilinu sem skoðað var voru vísbendingar um að Baugur hefði þegar átt í alvarlegum greiðsluerfiðleikum. Samkvæmt upplýsingum sem rannsóknarnefndin aflaði hafði Baugur ekki staðið skil á greiðslu á víxli (BAUG 08 0319) í eigu Peningamarkaðssjóðs Kaupþings á gjalddaga 19. mars 2008. Viðkomandi skuld var sett í innheimtu skömmu síðar. Sjóður 9 átti einnig um 1 milljarð króna í sömu útgáfu en ekki reyndi á greiðslugetu Baugs í því tilfelli því skuldinni var einfaldlega velt áfram með kaupum á nýrri víxlaútgáfu. Því má spyrja hversu vel Glitnir sjóðir hafi raunverulega kynnt sér lausafjárstöðu og greiðslugetu Baugs almennt þegar ákveðið var að framlengja 4,2 milljarða króna skuld félagsins við Sjóð 9 á gjalddaga í mars 2008. Að auki jukust heildarskuldir Baugs við Sjóð 1 um 1 milljarð króna í mánuðinum sem þá fór í hönd.

Hinn 9. júlí 2008 náðu hins vegar fréttir um slæma stöðu Baugs eyrum Glitnis sjóða þegar Baugur stóð ekki skil á greiðslu á víxli (BAUG 08 0709).Að sögn sjóðstjóra hjá Glitni sjóðum var þetta fyrsta vísbendingin sem rekstrarfélagið fékk um slæma stöðu Baugs. Að sögn sjóðstjórans hafði miðlari hjá Kaupþingi, sem upphaflega sá um útgáfu og sölu víxilsins, samband nokkru fyrir gjalddaga hans með tilboð um að sjóðurinn endurfjárfesti fyrir sömu upphæð. Sjóðstjórinn hafnaði því tilboði. Þrátt fyrir það fékk sjóðurinn ekki greiddan fyrrgreindan víxil á gjalddaga. Þegar grennslast var fyrir um greiðsluna hjá miðlara Kaupþings fengust þau svör að samkvæmt upplýsingum frá Baugi hygðist sjóðurinn endurfjárfesta andvirði víxilsins í nýjum víxlum. Því hafi ekki þótt ástæða til að ganga frá uppgjöri á víxlinum til Glitnis sjóða. Sjóðstjórinn sagðist ekki hafa viljað una því og hefði óskað eftir því við Kaupþing að þeirri greiðslu sem Baugur hafði greitt öðrum handhöfum sömu víxlaútgáfu yrði skipt hlutfallslega jafnt á alla eigendur víxilsins en úr því varð ekki.

Í framhaldinu var haft samband við Baug og óskað eftir skýringum og upplýsingum um það hvenær víxillinn fengist greiddur. Sjóðstjóri mun hafa gert Baugi grein fyrir því að til stæði að gjaldfella víxilinn. Síðar í mánuðinum óskaði aðstoðarforstjóri Baugs eftir fundi með sjóðstjóra Sjóðs 9 og framkvæmdastjóra Glitnis sjóða til að fara yfir stöðu Baugs. Farið var yfir upplýsingar og kynningu þar sem eiginfjárstaða félagsins var sögð ennþá sterk og að unnið væri að sölu eigna. Í framhaldinu var tekin sú ákvörðun að framlengja víxilinn í stuttan tíma gegn allsherjarveði til að tryggja betur möguleika á endanlegum endurheimtum allra skuldabréfa í eigu sjóðsins sem Baugur hafði gefið út. Umrætt veð reyndist vera allsherjarveð á 3. og 4. veðrétti í hlutum Baugs Group í einkahlutafélaginu BG Holding ehf. en veðskjöl eru dagsett og undirrituð 27. ágúst 2008. Það er því ljóst að tryggingarréttindi þau sem felast í veðinu eru í besta falli óljós enda stendur veðið aftarlega í kröfuröðinni, veðandlagið er hlutafé í eignarhaldsfélagi, en eignir þess voru þegar veðsettar Landsbankanum og Landsvaki, rekstrarfélag sjóða Landsbankans, var með fyrsta veðrétt í sjálfu eignarhaldsfélaginu. Þrátt fyrir að með vanskilum útgefanda verðbréfanna sem hér um ræðir væru fram komnar alvarlegar vísbendingar um aukna skuldaraáhættu, var skráð virði bréfanna í sjóðnum ekki fært niður í samræmi við líklegt markaðsverð í ljósi fram kominna upplýsinga.

Í september 2008 fjárfesti Sjóður 9 áfram í víxlum útgefnum af Baugi þrátt fyrir að félagið hefði skömmu áður ekki getað staðið í skilum með skuldbindingar sínar við sjóðinn. Í lok ágúst 2008 var skráð markaðsvirði Baugsbréfa í sjóðnum 11,5 milljarðar króna. Í lok septembermánaðar hafði staða sjóðsins í Baugsbréfum aukist um rúman milljarð króna í 12,5 milljarða (alls um 12% af heildarverðmæti sjóðsins eða 18% fyrir utan innlán). Því var ekki aðeins um að ræða framlengingu á ógreiddum víxlum útgefnum af Baugi heldur jókst heildarfjárfesting sjóðsins um rúman milljarð króna milli mánaða. Sjóðstjóri sjóðsins kvað þetta skýrast af því að Baugur hefði verið í endurteknum vanskilum.Við það hefðu safnast upp dráttarvextir sem bætt var við höfuðstól nýrra víxlaútgáfa auk þess sem ávöxtunarkrafan var hækkuð. Skráð virði bréfanna í sjóðnum tók hins vegar ekki mið af því að raunverulegt markaðsvirði þeirra væri mögulega mun lægra ef sjóðurinn neyddist til að selja bréfin á markaði."

 Afritað úr 4. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis sem aðgengileg er almenningi á http://althingi.is 

JKG


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Þeir héldu áfram allt að hruni - að ráðstafa fé almennings. Og enginn stoppaði þá þó svo allir sem hefðu getað gert það vissu nákvæmlega hvernig staðan var! Það kemur vel fram í 8. bindinu. Og hvað gerði t.d. FME - þeir ráðlögðu þeim að hætta að auglýsa t.d. Ice save!

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 1.9.2010 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rannsóknarskýrslan

Höfundur

Rannsóknarskýrslan
Rannsóknarskýrslan
Leshópur Rannsóknarskýrslu Alþingis. Markmið hópsins er að lesa saman skýrsluna, ræða efni hennar saman og á opinberum vettvangi og miðla henni og þeim lærdóm sem draga má af henni til almennings.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...ogforsetahj
  • ...urogutrasin
  • ...dsbanka2007
  • ...rgolfurgumm
  • ...golfur-geir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 568

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband