Tökum ekki þátt í þöggun á niðurstöðum Rannsóknarskýrslunnar!

Þann 17. desember 2008 voru samþykkt lög á Alþingi um ,,rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða." (Sjá hér) Í fyrstu grein þessara laga segir að tilgangur þeirra sé að koma á sérstakri rannsóknarnefnd sem hefur það hlutverk að „leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna.“ Henni er líka ætlað að leggja mat á það hvort um mistök eða vanrækslu er að ræða og hverjir beri ábyrgðina í þeim efnum.

Í þriðju málsgrein fyrstu greinar þessara sömu laga kemur kemur fram að nefndinni er líka ætlað að leggja mat á það „hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði.“

Í annarri grein Laga um rannsókn á aðdraganda og og falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða kemur fram að forsætisnefnd er ætlað að skipa „þriggja manna vinnuhóp einstaklinga með háskólamenntun“ í völdum félagsvísindagreinum. Þau sem tóku sæti í nefndinni voru: Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki, Salvör Nordal heimspekingur og Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur. Afraksturinn af samvinnu þeirra í þessu sambandi er að finna í 8. bindi Rannsóknarskýrslunnar.

Eins og áður segir var þessum hópi „ætlað að svara þeirri spurningu hvort efnahagshrunið megi að einhverju leyti skýra með starfsháttum og siðferði“ en niðurstöðurnar eru í 8. bindinu. Það er bindið sem flestir sem tilheyra leshópnum, sem stendur að baki þessu bloggi, eru að lesa núna. Það sem vekur athygli mína strax á fyrstu blaðsíðum bindisins er það hvað það er vel skrifað. Það er skrifað á virkilega vönduðu og aðgengilegu máli þannig að hver sem hefur lagt það í vana sinn að lesa lengra mál en venjulegan auglýsingatexta ætti að komast klakklaust í gegnum þennan testa. En innihaldið er ekki alltaf fagurt!

Höfundar rita inngang að þessu bindi þar sem þeir fara vandlega yfir það í hverju verkefni þeirra fólst, hvernig þeir unnu það, í hvaða markmiði og hverjir aðstoðuðu þá við verkið. Auk þess skýra þeir byggingu þess. Til að nálgast þá efnisafmörkun, sem var að svara hvort „efnahagshrunið megi að einhverju leyti skýra með starfsháttum og siðferði,“ þá skiptu höfundar 8. bindinu í þrjá eftirtalda hluta:

  • Fyrirtækjamenning: Í fyrsta hlutanum er gerð grein fyrir því hvaða fyrirtækjamenning mótaðist hér á landi um og upp úr síðustu aldamótum. Þar er fjallað um viðskiptasiðferði og starfshætti innan íslensku bankanna og í samskiptum bankamanna við viðskiptavini sína og eigendur.  Auk þess sem „sjónum er beint að innra eftirliti bankanna og hugað að ábyrgð fagmanna og stjórnenda.“
  • Eftirlitsstofnanir: Í örðum hlutanum er fjallað um starfshætti hjá eftirlitsstofnunum í stjórnsýslu almennt og í stjórnmálum. Þar er lagt mat á það hvernig þessir verðir almannahagsmuna stóðu sig í því hlutverki. Þar er líka „hugað að tengslum stjórnmála og fjármálalífsins í aðdraganda bankahrunsins.“ Eins er fjallað um þátt forseta Íslands og innlegg hans í orðræðu um útrásina. Umfjöllun annars hlutans er að lokum sett í samhengi við greiningu á íslenskri stjórnmálamenningu og stjórnsiðum.
  • Samfélagssýn áhrifamanna í viðskiptalífi og stjórnmálum: Í þriðja hlutanum er reynt að varpa ljósi á þá samfélagssýn sem var ríkjandi meðal áhrifamanna í viðskiptalífi og stjórnmálum á þessum tíma. Þar er líka hugað að tengslum fjármálalífsins við háskóla og fjölmiðla og hvort þessi tengsl hafi haft áhrif á umræðuna í samfélaginu eins og t.d. gangrýni erlendra aðila á íslenska bankakerfið. Að lokum er spurningin um það hvort og þá í hvaða skilningi „íslenska þjóðin beri sameiginlega ábyrgð á því sem gerðist.“ (8. bindi Skýrslunnar bls. 8)

Til að nálgast þetta verkefni leituðu höfundar víða fanga.

  • Þeir fóru yfir valið fjölmiðlaefni um bankamenn og fjármálastarfsemi í undanfara bankahrunsins.
  • Rannsóknarnefndin kallaði eftir gögnum úr viðskiptabönkunum þremur um m.a. risnu og styrki til stjórnmálaflokka, stofnana  og einstaklinga og gjafir til stórra viðskiptavina og vildarvina á tímabilinu 1. janúar til 8. október 2008.
  • Vinnuhópur um siðferði kallaði eftir upplýsingum um helstu atburði sem voru skipulagðir fyrir stjórnendur og stærstu  viðskiptavini bankanna svo sem laxveiðiferðir, utanlandsferðir og stór kvöldverðarboð á ofangreindu tímabili.
  • Hann aflaði líka gagna varðandi farþega með einkaflugvélum frá Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli.
  • Hann kallaði eftir upplýsingum um styrki til íslenskra háskóla frá bönkum og fjármálafyrirtækum.
  • Vinnuhópurinn byggði auk þessa mikið á skýrslutökum Rannsóknarnefndar Alþingis af þeim einstaklingum sem komu mest við sögu í atburðarrásinni í kringum bankahrunið. Hann óskaði eftir því að fleiri væru þar kallaðir til en eingöngu stjórnendur eftirlitsstofanna, eigendur bankanna og ráðherrar. Meðlimir vinnuhópsins höfðu auk þess frumkvæði af því að tala við nokkra til viðbótar s.s. erlenda aðila sem langflestir voru bankastarfsmann (Nokkrir þeirra vildu ekki láta nafn síns getið)

Af ofangreindri samantekt ætti öllum að vera ljóst hve mikil vinna liggur að baki því markmiði að svara spurningunni „hvort efnahaghrunið megi [...] skýra með starfsháttum og siðferði.“ Á næstu dögum mun sú sem þetta skrifar, ásamt öðrum í leshópnum, birta útdrætti, vangaveltur og ályktanir byggða á 8. bindinu, og svo hinum líka. Enda var Rannsóknarskýrslan skrifuð í þeim tilgangi að hún yrði lesin og lærdómar dregnir af niðurstöðum hennar. Þetta kemur m.a. fram í inngangi 8. bindisins þar sem segir:

Þessir stóru atburðir [þ.e. bankahrunið] draga fram margvíslega veikleika íslensks samfélags. Það er mat vinnuhóps um siðferði og starfshætti að höfuðmáli skipti að þjóðin geri sér grein fyrir þeim og að við öll lærum af þeim mistökum sem gerð voru. Íslendingar þurfa að velta því skipulega fyrir sér hvernig vinna eigi að betri fyrirtækjamenningu, bættum stjórnsiðum og öflugra lýðræðissamfélagi. (8. bd. Skýrslunnar bls. 8 (leturbreytingar eru mínar))

 Höfundar 8. bindisins taka það fram í innganginum að þeir líti svo á að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis skapi grunvöll fyrir upplýsta og málefnalega umræðu um starfshætti og siðferði í íslensku samfélagi en benda jafnfram á að til að svo megi verða verður allt samfélagið að taka þátt. Þeir segja:Það ræðst hins vegar ekki síður af móttökunum í samfélaginu hvort skýrslan verður hvati til þeirra þjóðfélagsbreytinga sem nauðsynlegar eru.“ (8. bd. Skýrslan bls. 8 leturbreytingar eru mínar)

Okkur sem myndum þennan leshóp blöskrar sú þögn sem ríkir í kringum Rannsóknarskýrsluna því við erum sannfærð um að hún sé nauðsynlegur grunnur til að byggja hér upp betra samfélag. Sú gríðarlega vinna sem liggur að baki henni skilaði okkur greinargóðum upplýsingum um það hvað þarft að bæta. Skýrslan var heldur ekki skrifuð til að rykfalla ólesinn uppi í hillu eða inni á lager. Það er orðið fullreynt að stjórnmála- og embættismannastéttin ætlar að hundsa hana ásamt fjölmiðlunum. Þeir virðast ekki skilja samhengið á milli þess að ritun nýrrar stjórnarskrár verður að grundvalla á ýtarlegri rannsóknarvinnu eins og þeirri sem liggur að baki Rannsóknarskýrslunni.

Við viljum ekki taka þátt í því að hér verið skrifuð ný stjórnarskrá án staðgóðrar þekkingar á því hverju þarf að breyta. Lestur skýrslunnar er leiðin til að afla sér slíkrar þekkingar.

                                                                                                                                             RS 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Vil bæta því við að það kemur fram að: „Vinnuhópurinn [sem vann 8. bindið] lítur svo á að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verði grundvöllur fyrir upplýsta og málefnalega umræðu um starfshætti og siðferði í íslensku þjóðfélagi.“ (bls.8)

Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.8.2010 kl. 14:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rannsóknarskýrslan

Höfundur

Rannsóknarskýrslan
Rannsóknarskýrslan
Leshópur Rannsóknarskýrslu Alþingis. Markmið hópsins er að lesa saman skýrsluna, ræða efni hennar saman og á opinberum vettvangi og miðla henni og þeim lærdóm sem draga má af henni til almennings.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...ogforsetahj
  • ...urogutrasin
  • ...dsbanka2007
  • ...rgolfurgumm
  • ...golfur-geir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband