Úr 4. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis

13.7 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis

"Allir stóru bankarnir þrír tóku að verja eiginfjárhlutfall sitt gagnvart gengisbreytingum íslensku krónunnar í auknum mæli síðustu tvö árin fyrir hrun bankanna, enda var æ stærri hluti af bæði eignum og skuldum þeirra í erlendum gjaldmiðlum. Má ætla, samanber gögn sem birt eru í kafla 8.0, að erlendar eignir bankanna hafi að miklu leyti verið lánveitingar til innlendra fyrirtækja í erlendum myntum. Auknar lánveitingar til einstaklinga í erlendum myntum komu þar líka við sögu, og var breytingin í raun meiri á þeim markaði eins og fram kemur í kafla 8.0, þar sem lánveitingar í erlendum myntum til einstaklinga jukust allverulega á tímabilinu frá 2006 og fram að falli bankanna. Með þessu var í raun verið að flytja myntáhættu, sem skapaðist vegna fjármögnunar bankanna erlendis, frá þeim yfir á einstaklinga. Ef svo horfði við að þessir einstaklingar voru ekki með tekjur í erlendri mynt er hætta á að gengisáhættan hafi í raun enn verið til staðar hjá bönkunum en þá sem útlánaáhætta.

Framvirkir samningar voru einnig mikið nýttir til að auka erlenda eign bankanna umfram erlendar skuldir. Þá má helst nefna samninga við jöklabréfaútgefendur og lífeyrissjóði sem hvorir tveggja gerðu framvirka samninga sem skila áttu krónum á gjalddaga.

Það vakti athygli rannsóknarnefndarinnar að á því tæpa tveggja ára tímabili sem hér var til skoðunar var Kaupþing stór nettó kaupandi gjaldeyris á millibankamarkaði á meðan Landsbanki Íslands veitti miklu magni gjaldeyris út á markaðinn. Eins og fram kemur í kaflanum var Kaupþing ekki eingöngu að kaupa fyrir eigin reikning heldur einnig í miklum mæli fyrir hönd stærstu viðskiptavina sinna.

Frá því í nóvember 2007 og fram í janúar 2008 keyptu fimm innlend fyrirtæki, það er Exista, Kjalar, Baugur og tvö félög tengd Baugi, 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana. Meirihluti þess gjaldeyris var keyptur af Kaupþingi. Þetta vekur óneitanlega athygli sérstaklega í ljósi þess að viðskiptin voru mjög umfangsmikil miðað við fyrri viðskipti flestra þessara fyrirtækja.

Sú staðreynd að afleiddur vaxtamunur á gjaldmiðlaskiptamarkaðnum fór niður í núll í mars 2008 var skýrt merki um þann verulega skort á erlendum gjaldeyri sem til staðar var hér á landi. Boðið var upp á að ávaxta evrur nánast á krónuvöxtum sem hefði undir öllum venjulegum kringumstæðum átt að leiða til mikils innflæðis gjaldeyris. Þetta varð ekki. Krónan féll á hinn bóginn þegar erlendir aðilar tóku krónur sínar í auknum mæli út úr bönkunum þar sem afleiddir vextir á þeim voru orðnir þeir sömu og evruvextir. Þessum krónum var síðan skipt í evrur, sem leiddi til falls íslensku krónunnar. Seðlabanki Íslands reyndi að stemma stigu við þessari þróun með útgáfu innstæðubréfa og telja má líklegt að það hafi að einhverju leyti spornað við frekara falli krónunnar.

Lífeyrissjóðir landsins voru vel varðir fyrir hreyfingum krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Það vekur athygli að þessar varnir jukust þegar krónan veiktist sem gefur til kynna að þessu hafi verið stýrt á virkan hátt í stað þess að ákveðið fast hlutfall erlendu eignarinnar hafi verið varið. Ummæli stjórnenda sjóðanna skjóta einnig stoðum undir þá ályktun. Það er því ljóst að þessir lífeyrissjóðir væntu þess að íslenska krónan ætti eftir að styrkjast. Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna höfðu allt að 90% af erlendum eignum sínum varin á árinu 2008. Það er vert að benda á að lífeyrissjóðir eru langtímafjárfestar og þessir varnarsamningar, hvort sem þeir voru framvirkir gjaldeyrissamningar eða gjaldmiðlaskiptasamningar, voru yfirleitt til skamms tíma.Við slíkar aðstæður myndast mótaðilaáhætta meðal annars, sem getur falið í sér að lífeyrissjóðirnir verða að innleysa samningana þegar þeir eru ekki að flytja erlendan gjaldeyri inn í landið. Þetta var í raun það sem gerðist í október 2008 en þá stóðu lífeyrissjóðirnir frammi fyrir því að þeir gætu neyðst til að gera upp gjaldmiðlaskiptasamninga á mjög óhagstæðu gengi án þess að tímabært væri að leysa inn stóra hluta erlendu eignanna.

Rannsóknarnefnd Alþingis aflaði álits erlends sérfræðings á því hvort lífeyrissjóðir ættu almennt að verja erlendar eignir sínar. Svar sérfræðingsins má sjá hér til hliðar. Það felur í sér að almennt sé ekki hægt að mæla með skammtímavörnum á langtímaeignir. Þegar litið væri til þess að íslensku lífeyrissjóðirnir væru enn að auka við eignir sínar, bæði innlendar og erlendar, benti erlendi sérfræðingurinn á að mikilvægt væri að horfa til þess hvort erlendu fjárfestingarnar væru "ódýrar" í krónum talið. Það er ef virði krónunnar eykst þá yrði erlend fjárfesting ódýr í krónum og þá ætti að auka við hana, en öfugt ef virði krónunnar minnkar. Því ætti að auka erlendar fjárfestingar þegar krónan er sterk. Sú stefna næst fram t.d. með því að hafa fast hlutfall eigna í erlendum myntum. Benti hann á að skammtímasveiflur á verðmæti eignanna skipti í raun ekki máli. Skoðanir á því hvort lífeyrissjóðir eigi að verja erlendar eignir sínar fyrir gjaldeyrissveiflum eru mismunandi, en hvað sem því líður telur rannsóknarnefnd Alþingis það umhugsunarvert að þeir þrír lífeyrissjóðir sem kannaðir voru hafi aukið varnir þegar krónan tók að veikjast sem bendir til þess að sjóðirnir, sem eiga að vera með langtímafjárfestingarmarkmið, hafi verið að vonast eftir skjótfengnum ágóða á gjaldeyrismarkaði."   JKG

Þetta er afritað af vef Alþingis um rannóknarskýrslu Alþingis. 

Skýrslan er öllum aðgengileg á slóðinni http://althingi.is  Ég hvet alla til þess að lesa skýrsluna, og kynna sér niðurstöðuna...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rannsóknarskýrslan

Lífeyrissjóðirnir eiga svo sannarlega ekki að standa í áhættufjárfestingum enda er þeirra hlutverk að standa vörð um peningaeign sjóðsfélaga sinna og ávaxta á sem bestan og öruggastann hátt.

LB 

Rannsóknarskýrslan, 31.8.2010 kl. 22:21

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er kannski sljó en mér finnst á lestri síðustu málsgreinanna í færslunni að lífeyrissjóðirnir hafi tekið stöðu á móti krónunni.  Og átt þar með stóran þátt í hruninu...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 31.8.2010 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rannsóknarskýrslan

Höfundur

Rannsóknarskýrslan
Rannsóknarskýrslan
Leshópur Rannsóknarskýrslu Alþingis. Markmið hópsins er að lesa saman skýrsluna, ræða efni hennar saman og á opinberum vettvangi og miðla henni og þeim lærdóm sem draga má af henni til almennings.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...ogforsetahj
  • ...urogutrasin
  • ...dsbanka2007
  • ...rgolfurgumm
  • ...golfur-geir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband